Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Skúrkur, lömull og bedragari!

Í síðustu færslu minni nefni ég þrjú sjaldgæf orð og er strax farinn að hljóma eins og Íslenskt mál á Gufunni: "Kona úr Barðastrandasýslu skrifaði þættinum .... ".

Það skal sagt til upplýsingar að orðin eru eftirlætis-skammarorð kærrar, fyrrum samstarfskonu minnar í Hagaskóla Íslands. Sú heitir Þórunn Bjarnadóttir og kenndi dönsku í nokkra áratugi við unglingaakademíuna við Hagatorg. Hún sletti náttúrlega dönsku í tíma og ótíma, líkt og við beitum fyrir okkur enskuslettum. Hún skammaðist gjarnan út í okkur en allt var það með léttri lund og algjörlega án leiðinda eða pirrings. Af þessu höfðu samstarfsmenn mikið gaman og athugasemdir hennar lyftu oft upp stemmningunni í hópnum.

Þeir tímar voru í landinu í þann tíð, að menn reyktu tóbak ótæpilega á vinnustöðum, á kennarastofum engu síður en annars staðar. Einhvern tíma hafði hún lagt frá sér sérstakt hulstur hvar í hún fól sígaretturnar sínar; og fann ekki. Þá upphófst hún með: "Hefur einhver séð fútteralið utan af mínum síga-rettum? Það hefur ábyggilega einhver skúrkur, lömull og bedragari falið það!!".

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband